Skagastelpur unnu góðan sigur á Gróttu

Stelpurnar OKKAR lögðu lið Gróttu í Akraneshöll í gærkvöld með þremur mörkum gegn einu. Þetta var fyrsti æfingarleikur liðsins þetta haustið og lofar góðu fyrir framhaldið.
Fyrsta markið kom á 25. mín leiksins en þá braust Selma Dögg Þorsteinsdóttir , bakvörður upp hægri kantinn og sendi frábæra sendingu fyrir markið. Þar kom Lilja Björg Ólafsdóttir og lagði boltann í bláhornið. Staðan 1-0 fyrir Skagastelpur. Liðin skiptust á að sækja en fleiri mörk komu ekki í fyrri hálfleik þrátt fyrir fjölmörg marktækifæri.
Seinni hálfleikur hófst með látum en gestirnir skoruðu strax eftir 30 sek. Staðan orðin 1-1. Skagastelpur tóku miðju, brunuðu fram og sókninni lauk með þrumuskoti frá Maríu Björk Ómarsdóttur , óverjandi skot og staðan orðin 2-1.
Skagastelpur kláruðu síðan leikinn með góðu marki á 80. mínútu en þá skoraði Erna Björt Elíasdóttir þriðja mark heimamanna og sigurinn var í höfn.
Eins og fyrr segir þá var þessi leikur góð byrjun á nýju keppnistímabili og það verðu gaman að fylgjast með ungu og efnilegu Skagaliði í næstu leikjum.






