







Á núliðnum síðari hluta aðalfundar fyrir árið 2024 veitti Knattspyrnufélag ÍA þremur einstaklingum heiðursviðurkenningar fyrir framlag þeirra til félagsins í gegnum árin.
Friðþjófur Helgason - Heiðursviðurkenning KFÍA
Knattspyrnufélag ÍA veitti Friðþjófi Helgasyni heiðursviðurkenningu fyrir ómetanlegt framlag hans til varðveislu sögu knattspyrnunnar á Akranesi. Friðþjófur hefur í gegnum árin, allt frá 1970 tekið mikið magn ljósmynda af fótboltastarfinu. Þannig má segja að hann hafi tekið við af föður sínum Helga Daníelssyni heitnum, sem einnig var mjög duglegur að taka ljósmyndir. Þeir feðgar skilja eftir sig gríðarlegt myndasafn sem félagið hefur notið góðs af. Það má með sanni segja að ekkert íþróttafélag á Íslandi sé jafn ríkt af sögulegum myndum og Knattspyrnufélag ÍA. Þeir feðgar eiga stóran þátt í því. Stór hluti myndanna sem eru til sýnis í Akraneshöllinni koma úr safni Friðþjófs.
Friðþjófur hefur ekki einungis tekið myndir, hann var um tíma leikmaður ÍA. Hann var í leikmannahópi meistaraflokks ÍA árið 1971 og þjálfari meistaraflokks kvenna árið 1972. Það ár varð kvennaliðið Íslandsmeistari innanhúss. Það er sönn ánægja að veita Friðþjófi heiðursviðurkenningu KFÍA og þakka Friðþjófi fyrir hans framlag til Knattspyrnufélags ÍA.
Halldór Fr. Jónsson – Gullmerki KFÍA
Knattspyrnufélag ÍA veitti Halldóri Fr. Jónssyni gullmerki fyrir framlag hans til knattspyrnunnar á Akranesi. Halldór var einn af þeim sem að tók yngri flokka þjálfun félagsins föstum tökum í byrjun 8. áratugar síðustu aldar. Unglingaráð KRA (Knattspyrnuráð Akraness) var stofnað upp úr 1970. Halldór var einn af þeim sem átti frumkvæðið að stofnun ráðsins. Hann ásamt fleirum sá að ýmislegt þurfti að bæta í uppeldisstarfinu. Halldór varð fljótlega einn af öflugum burðarásum í starfinu. Hann varð formaður unglingaráðsins árið 1976 og má segja að mikil elja og metnaður hafi einkennt starf hans fyrir ráðið. Hann barðist mikið fyrir því að yngri flokka þjálfarar myndu mennta sig og að þeir fengju sæmandi laun og því að foreldrar sýndum börnum sínum áhuga í knattspyrnunni. Halldór sýndi alla tíð af sér mikinn dugnað og útsjónarsemi við að afla fjár til starfseminnar. Hann sat í unglingaráði til 1983 og var sjálfur þjálfari sem náði góðum árangri með sín lið. Hann þjálfaði marga af þekktustu leikmönnum félagsins í gegnum árin og varð Íslandsmeistari með sín lið í 5. flokki árið 1977 þar sem hann þjálfaði ásamt Sævari Guðjónssyni, síðan í 5. flokki 1980 og 4. flokki 1984. Halldór sat í stjórn Knattspyrnufélags ÍA árin 1987 til 1991. Það er sönn ánægja að heiðra Halldór með gullmerki fyrir hans framlag til knattspyrnunnar á Akranesi.
Magnea Guðlaugsdóttir – Gullmerki KFÍA
Knattspyrnufélag ÍA veitti Magneu Guðlaugsdóttur gullmerki fyrir framlag sitt til kvennaknattspyrnunnar á Akranesi. Stúlkur sem fæddar voru um 1970 á Akranesi voru þær fyrstu sem gátu æft knattspyrnu í yngri flokkum ÍA. Ein þeirra stúlkna sem hóf snemma að æfa fótbolta var Magnea Guðlaugsdóttir. Hún hóf raunar fyrst að æfa með strákunum en færði sig fljótlega yfir til stelpnanna þegar 3. flokkur kvenna var stofnaður við upphaf níunda áratugarins. Aðeins einn flokkur bauðst stúlkum á grunnskólaaldri, hvort sem þær voru sex eða fimmtán ára. Magnea eyddi því mörgum árum í sama flokki og til marks um það er kannski fyrirsögn Skagablaðsins árið 1987: „Magnea Guðlaugsdóttir var kosin besti leikmaður 3. flokks kvenna fjórða árið í röð,“ en þá var Magnea 13 ára og margfaldur Íslandsmeistari í flokknum.
Hún var hluti öflugum meistaraflokki níunda og tíunda áratugarins og varð fjórfaldur bikarmeistari á árunum 1989-1993 en félagið komst í bikarúrslit sjö ár í röð frá 1987-1993.
Magnea lék með ÍA með hléum til ársins 2004 en það tímabil var endurkomutímabil hjá mörgum lykilleikmönnum níunda og tíunda áratugarins og rúllaði liðið upp 1. deildinni þar sem Magnea skoraði 19 mörk í 16 leikjum.
Magnea hóf ung að þjálfa hjá ÍA og þjálfaði bæði stúlkur og drengi. Magnea tók við þjálfun meistaraflokks kvenna hjá ÍA árið 2013 og þjálfaði til 2014. Hún stýrði liðinu aftur árin 2022-2023. Magnea varð fyrsti þjálfari meistaraflokks kvenna í fullu starfi og hefur barist fyrir betri aðbúnaði kvennaknattspyrnunnar á Akranesi með góðum árangri. Það er sönn ánægja að heiðra Magneu með gullmerki fyrir hennar frábæra framlag til knattspyrnunnar á Akranesi.
Ingimar Elí Hlynsson
Framkvæmdastjóri
Sími: 620 2870
ingimarh@ia.is
Páll Guðmundur Ásgeirsson
Skrifstofu-og verkefnastjóri KFÍA
Sími: 858 7361
palli@ia.is
Sverrir Mar Smárason
Sölu- og markaðsstjóri KFÍA
Sími: 897 6153
sverrir@ia.is