






Knattspyrnufélag ÍA hefur gert samning við Sigurð Jónsson um að taka að sér starf afreksþjálfara hjá KFÍA. Sigurður hefur verið lykilmaður í starfi félagsins undanfarin ár, sem aðstoðarþjálfari mfl. karla, þjálfari 2. flokks karla ásamt því að sinna öðrum verkefnum á vegum KFÍA. Með starfi afreksþjálfara vill KFÍA leggja enn meiri áherslu á afreksþjálfun og enginn er betur til þess fallinn að skipuleggja það starf en Sigurður Jónsson. Markmið afreksþjálfara verður að móta knattspyrnumenn framtíðarinnar og tryggja endurnýjun á meðal uppaldra leikmanna. Þá er einnig hlutverk afreksþjálfara að vinna náið með öðrum þjálfurum félagsins sem og styrkja leikmannahópinn með ungum leikmönnum. Þá verður Sigurður áfram þjálfari 2. flokks karla í samstarfi við Elinberg Sveinsson.
Sigurður er margreyndur landsliðsmaður og atvinnumaður, auk þess að eiga að baki 76 leiki með mfl. ÍA. Sigurður hefur þjálfað mörg lið og þar á meðal lið Djurgården í sænsku úrvalsdeilinni og skilaði hann liðinu í annað sæti deildarinnar. Undanfarin ár hefur Sigurður starfað innan raða Knattspyrnufélags ÍA með frábærum árangri, meðal annars gert 2. flokk karla að Íslandsmeisturum tvö ár í röð. B lið 2. flokks karla varð einnig Íslandsmeistari í ár og er mjög fágætt að sama félag eigi Íslandsmeistara bæði í A og B liðum í þessum aldursflokki. 2. flokkur karla er svo þessa dagana að taka þátt í Unglingadeild UEFA í fyrsta sinn, þeir eiga útileik í næstu viku á móti Levadia frá Eistlandi eftir frábæran 4-0 heimasigur.
Magnús Guðmundsson , formaður KFÍA, lýsti yfir mikilli ánægju með að búið væri að ganga frá samningi við Sigurð „Við erum rosalega ánægð með nýjan afreksþjálfara og hlökkum mikið til að sjá Sigurð móta starfið til framtíðar sem við trúum að skili sér í frábærum árangri sem og frábærum knattspyrnumönnum. Þá viljum við halda áfram þeirri vegferð sem afreksstarf okkar er á og tryggja aðkomu Sigurður að því til framtíðar. Við teljum að árangur okkar Skagamanna til lengri tíma litið mótist af afreksstarfi okkar.”
„Ég er Skagamaður, þetta
er klúbburinn minn og ég er
mjög stoltur að fá tækifæri til að móta þetta áhugaverða starf sem klúbburinn
hefur falið mér“ segir Sigurður Jónsson
. „Ég hef mikinn metnað fyrir því að
móta afreksstarf knattspyrnufélagsins til framtíðar og ég vona að fá tækifæri til þess að móta unga leikmenn sem munu skila sér inn í íslenska sem og
erlenda knattspyrnu. Ég hlakka mikið til“
Ingimar Elí Hlynsson
Framkvæmdastjóri
Sími: 620 2870
ingimarh@ia.is
Páll Guðmundur Ásgeirsson
Skrifstofu-og verkefnastjóri KFÍA
Sími: 858 7361
palli@ia.is
Sverrir Mar Smárason
Sölu- og markaðsstjóri KFÍA
Sími: 897 6153
sverrir@ia.is