Nokkrar breytingar á leikmannahópi KFÍA

Breytingar verða á leikmannahóp meistaraflokks karla ÍA á næstu leiktíð í PepsiMax-deildinni.
Einar Logi Einarsson
, einn af leikreyndustu leikmönnum liðsins, hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna, tímabundið í það minnsta. Í viðtali á Skagafréttum
kemur fram að hann starfar sem sjúkraflutningamaður meðfram störfum sínum sem tölvunarfræðingur á Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi. Sjúkraflutningastarfið og fótboltinn fari ekki nógu vel saman og því hafi hann tekið þá ákvörðun að hætta hjá félaginu og fara í frí frá fótboltanum um óákveðinn tíma.
Varnarmaðurinn Arnór Snær Guðmundsson
hefur tekið við nýju hlutverki sem aðstoðarþjálfari og styrktarþjálfari hjá meistaraflokk karla. Á sama tíma gaf hann út að hann ætlaði ekki að leika með liðinu samhliða þjálfarastarfinu.
Fyrir skömmu var gengið frá starfslokum Gonzalo Zamorano
við félagið og Albert Hafsteinsson
ákvað að nýta sér uppsagnarákvæði í samningi sínum og leita á önnur mið.
Eftirsjá verður af þessum öflugu leikmönnum og vill KFÍA þakka þeim fyrir vel unnin störf fyrir félagið.






