Blog Post

Stöndum þétt saman.

Hlini Baldursson • Apr 01, 2020

Ég vil byrja á því að þakka Skagamönnum góðar kveðjur og Knattspyrnufélaginu ÍA fyrir traustið að ráða mig til starfa sem framkvæmdastjóra félagsins. Knattspyrnan á Akranesi á sér langa og glæsta sögu sem nær langt út fyrir landsteinana. Það er okkar sameiginlega hlutverk að halda merki ÍA á lofti og ná árangri í starfi og leik á komandi keppnistímabili sem verður ólíkt öllum öðrum vegna Covid-19 veirunnar.


Rekstrarskilyrði knattspyrnufélaga hafa ávallt verið og munu áfram vera krefjandi, þar sem treysta verður á ómælt framlag félagsmanna, stuðningsmanna, atvinnulífsins og ýmissa viðburða félagsins. Nú hefur Covid-19 faraldurinn breytt rekstrarforsendum knattspyrnufélaga með áður óþekktum hætti. Frá síðari hluta janúar á þessu ári hafa hlaðist upp óveðurský í rekstri félagsins en með samkomubanni hafa rekstrarhorfur knattspyrnufélaga versnað til mikilla muna þannig að í reynd hefur ástandið á nokkrum vikum orðið kolsvart.


Knattspyrnufélag ÍA hefur orðið að bregðast við nýju aðstæðum með áður óþekktum hætti til að vernda starfsemi félagsins. Stjórnin félagsins ákvað, sem fyrsta skref, að beita neyðarúrræðum strax um þessi mánaðamót og skerða launagreiðslur til þjálfara og leikmanna umtalsvert. Ráðstöfunin er sársaukafull en nýtur skilnings þessara aðila sem er gott dæmi um að okkar fólk er með stórt ÍA hjarta. Mikilvægt er að upplýsa bæjarbúa og stuðningsmenn um þessar ráðstafanir félagsins. Við berum þá von í brjósti að skilningur á sérstöðu íþrótta verði til þess að úrræði ríkisvaldsins um minnkað starfshlutfall nýtist þjálfurum og leikmönnum okkar. Það er mikilvægt að stjórnvöld, bæði ríkisvaldið og bæjaryfirvöld, sýni því skilning hve mikilvægu hlutverki þjálfarar og leikmenn gegna í samfélagi okkar við uppbyggingu íþróttar fyrir líkamlegt og andlegt heilbrigði ungs fólks. Orðstír knattspyrnunnar á Akranesi hefur farið víða og aukið hróður bæjarfélagsins langt út fyrir landsteinana. Stuðningur bæjarfélagsins við starf knattspyrnufélagsins er nú mikilvægari en nokkru sinni fyrr.


Knattspyrnufélag ÍA hefur staðið sig vel í uppeldi knattspyrnumanna eins og kunnugt er. Kröfur á leikmenn í dag eru allt aðrar og meiri en áður og því eðilegt að umbuna þeim í hlutfalli við framlag þeirra fyrir félagið og í senn bæjarfélagið. Án umbunar er erfitt að gera allar þær kröfur til leikmanna sem í dag þykja sjálfsagðar og án hennar komumst við ekki í fremstu röð. Hins vegar er það jafnframt mikilvægt hlutverk knattspyrnufélagsins að halda rekstri þess í góðu jafnvægi milli tekna og gjalda. Við viljum ná því jafnvægi í góðri sátt við þjálfara og leikmenn með stuðning allra þeirra sem að félaginu koma.


Því er ekki að leyna að í hönd fara erfiðir tímar í rekstri Knattspyrnufélags ÍA en í mótbyr kunna að felast ný tækifæri. Með samstöðu, mikilli vinnu og skynsemi verðum við í fremstu röð íslenskra knattspyrnufélaga innan sem utan vallar og það er þekkt úr sögunni að sætir sigrar hafa unnist á knattspyrnuvellinum þegar á móti blés í rekstrinum. Þrátt fyrir framlag okkar sem ráðnir erum til starfa, framlags sjálfboðaliða í stjórn og ráðum, mun framlag almennra sjálfboðaliða, velunnara félagsins, stuðningsaðila og þín stuðningsmaður góður skipta sköpum fyrir framtíð ÍA í miklum ólgusjó. Við þurfum allan þann stuðning sem við getum fengið. Ég skora á Skagamenn að standa saman sem einn maður á erfiðum tímum. Standa við bakið á leikmönnum, þjálfurum og félaginu okkar, Knattspyrnufélaginu ÍA, á krefjandi tímum. Öll él birtir upp um síðir og þá er mikilvægt að við séum öll klár í leikinn.



Áfram ÍA,

Geir Þorsteinssson,

framkvæmdastjóri.

By Páll Guðmundur Ásgeirsson 28 Feb, 2024
Gullmerki ÍA Guðjón Þórðarson hlýtur gullmerki fyrir frábært framlag hans til knattspyrnunnar á Akranesi. Guðjón er margfaldur Íslands og bikarmeistari með ÍA sem leikmaður og þjálfari. Hann lék 392 leiki og skoraði 16 mörk ásamt því að þjálfa liðið til margra ára. Eins og allir vita þá kom Guðjón liðinu upp úr 1.deild árið 1991 og gerði liðið að Íslandsmeisturum árið eftir, sem má teljast einstakt afrek. Lið ÍA frá árinu 1993 var svo á dögunum valið besta lið síðustu 40 ára í íslenskri knattspyrnu á Vísi, lið sem gjör sigraði Íslandsmótið og sigraði einnig bikarkeppnina sama ár og var liðið kallað í grein á Vísi “hinir ósnertanlegu”. Á listanum á Guðjón tvö ÍA lið á topp 10 en liðið frá 1996 var einnig á listanum, sem varð einnig tvöfaldur meistari.  Guðjón hefur staðið öðrum þjálfurum framar á Íslandi í áraraðir og þótti brautryðjandi í þjálfun. Hann hefur sýnt árangur sem erfitt er að leika eftir. Það er sannur heiður að heiðra Guðjón með gullmerki fyrir hans frábæra framlag til knattspyrnunnar á Akranesi
By Páll Guðmundur Ásgeirsson 28 Feb, 2024
Heiðursviðurkenning KFÍA: Áslaug Ragna Ákadóttir Áslaug hóf ung að leika knattspyrnu fyrir ÍA og varð síðar einn af lykil leikmönnum liðsins um árabil. Hún sýndi snemma mikla knattspyrnuhæfileika og var áberandi upp alla yngri flokkana. Áslaug varð Íslandsmeistari með 2. og 3.flokki og lék hún sinn fyrsta meistaraflokksleik með ÍA árið 1993 og varð hún bikarmeistari með liðinu það sama ár. Áslaug lék 149 leiki og skoraði 98 mörk fyrir ÍA. Hún var fasta maður í yngri landsliðum Íslands, þar af spilaði hún 8 leiki með U 21 árs liðinu. Áslaug hefur einnig starfað fyrir félagið sem þjálfari yngri flokka ásamt því að hafa setið í stjórnum og ráðum á vegum félagsins. Skemmtilegt að segja frá því að myndin er af þeim mæðgum, Áslaugu og Bryndísi Rún frá árinu 2014 þar sem þær tóku báðar þátt í leik í Lengjubikar og svo síðar sama ár í leik í Pepsi deildinni þar sem Áslaug kom inná fyrir Bryndísi. Það er sönn ánægja að veita Áslaugu heiðursviðurkenningu KFÍA og þakka Áslaugu fyrir hennar framlag til Knattspyrnufélags ÍA.
By Páll Guðmundur Ásgeirsson 21 Feb, 2024
Aðalfundur Knattspyrnufélags ÍA fór fram 20.febrúar að Jaðarsbökkum. Stjórn félagsins þakkar fyrir góða þátttöku á fundinum, ánægjulegt að sjá hve margir mættu á fundinn. 2 nýjir stjórnarmenn voru kosnir inn í stjórn. Stjórn KFIA fyrir árið 2024 skipa: Eggert Hjelm Herbertsson – Formaður Ellert Jón Björnsson (endurkjörinn) Guðrún Þórbjörg Sturlaugsdóttir (kemur ný inn) Ingimar Elí Hlynsson (Formaður barna- og unglingaráðs) Jóhannes H. Smárason (endurkjörinn) Lára Dóra Valdimarsdóttir Lilja Gunnarsdóttir Linda Dagmar Hallfreðsdóttir (kemur ný inn en var í fyrri stjórn sem Formaður barna og unglingaráðs) Sturlaugur Haraldsson (kemur nýr inn) Þá gengu úr stjórn: Freydís Bjarnadóttir, Sigurður Þór Sigursteinsson. Í Barna- og unglingaráð voru 3 nýjir kosnir inn umboð einnar var endurnýjað. Barna – og unglingaráð fyrir árið 2024 skipa: Ingimar Elí Hlynsson – Formaður (kemur nýr inn en var áður í stjórn) Andri Lindberg Karvelsson Anna María Þórðardóttir (umboð endurkjörin) Arna Björk Ómarsdóttir (kemur ný inn) Aðalheiður Rósa Harðardóttir (kemur ný inn) Ívar Orri Kristjánsson Örn Arnarsson Þá gengu úr stjórn: Linda Dagmar Hallfreðsdóttir sem fráfarandi formaður, Sædís Alexía Sigurmundsdóttir og Berta Ellertsdóttir. Kjörnefnd: það voru breytingar á Kjörnefndinni: Margrét Ákadóttir - formaður Þórður Guðjónsson - endurkjörinn Hallur Flosason - nýr inn Magnús Brandsson hætti sem formaður Kjörnefndar eftir um 15 ár, þökkum honum fyrir frábær störf fyrir félagið. Knattspyrnufélag ÍA þakkar þeim sem eru að hætta í stjórnum KFÍA fyrir þeirra framlag undanfarin ár.
15 Feb, 2024
Aðalfundur Knattspyrnufélags ÍA verður haldinn þriðjudaginn 20. febrúar nk. kl. 20 í fundarsalnum í Íþróttamiðstöðinni að Jaðarsbökkum. Dagskrá verður skv. 8. grein laga félagsins sem finna má á heimasíðunni. Stjórn Knattspyrnufélags ÍA samþykkti ársreikning félagsins á stjórnarfundi 13. febrúar sl. og má finna slóð á hann hér að neðan. Ársreikningurinn verður borinn upp til samþykktar á aðalfundi sem og meðfylgjandi rekstraráætlun fyrir árið 2024. Þá er einnig birt ársskýrsla Knattspyrnufélags ÍA fyrir starfsárið 2023. Ein lagabreyting liggur fyrir fundinum og er til birtingar á skrifstofu. Ársskýrsla 2023 Ársreikningur 2023 til afgreiðslu á aðalfundi Rekstraráætlun 2024 til afgreiðslu á aðalfundi
05 Feb, 2024
20. febrúar klukkan 20:00
By Páll Ásgeirsson 28 Dec, 2023
Dregið hefur verið í happdrættinu, var það gert hjá Sýslumanni eins og lög kveða á um. Við þökkum kærlega fyrir stuðninginn, hann skiptir okkur miklu máli. Hægt verður að vitja vinninga frá 4. janúar - 1. mars 2024. Eftir það munu ósóttir vinningar renna í aðrar fjáraflanir félagsins. Til að vitja vinninga sendið póst á palli@ia.is eða hringið í 858 7361 á skrifstofutíma. Happdrætti Knattspyrnufélags ÍA, kt. 500487-1279 Útdráttur 28. desember 2023 Vinningaskrá Jólahappdrættis Knattspyrnufélags ÍA
By Páll Ásgeirsson 11 Dec, 2023
Jólahappdrætti KFÍA er farið af stað
By Páll Ásgeirsson 19 Sep, 2023
Á sigurslóð er glæsileg heimasíða sem fór í loftið 15. september síðastliðinn. Á síðunni er hægt að nálgast yfirgripsmikinn fróðleik um sögu Knattspyrnufélagsins ÍA og óhætt er að fullyrða að ekkert annað félag hér á landi er með jafn yfirgripsmikla sögu sem er svona aðgengileg almenningi. Á síðunni stendur meðal annars: " Á sigurslóð er heimasíða um knattspyrnuna á Akranesi, þar sem upplýsingum og sögumolum um leikmenn og viðburði liðinna áratuga er safnað saman á einn stað. Saga þessarar alþýðumenningar er samfélaginu á Akranesi mikilvæg. Hún er hluti af sögu bæjarfélagsins, ímyndar þess og orðspors, en um leið hluti af sjálfsmynd íbúanna og minning um einstaklinga, fjölskyldur og viðburði sem mikilvægt er að halda í heiðri. Merk saga styður við ímynd samfélagsins og gerir það áhugavert fyrir þá sem þar búa eða vilja þangað flytja. Síðan er nútímaleg með áhugaverðu efni og ætlað að ná til fólks á öllum aldri. Með því að gera söguna aðgengilega er opnaður gluggi á leikmenn fortíðar og þann bæjarbrag sem knattspyrnan hafði sterk áhrif á." Við óskum feðgunum Jóni Gunnlaugssyni og Stefáni Jónssyni kærlega til hamingju með áfangann. Jón byrjaði fyrir áratugum þegar hann var ungur leikmaður ÍA að safna saman heimildum sem varða félagið. Eyddi hann meðal annars löngum stundum inn á Þjóðskjalasafninu að leita að gömlum heimildum varðandi félagið. Þessi brennandi áhugi smitaðist yfir í Stefán Jónsson sem að hefur komið að miklum krafti inn í starfið með föður sínum. Þeir hafa fengið mikinn og góðan stuðning frá ýmsum aðilum í að finna gamlar heimildir og myndir. Knattspyrnufélagið ÍA mun ávallt standa í mikilli þakkarskuld þá féðga og alla þá sem lögðu þeim lið í þessari löngu vegferð þeirra sem er að verða okkur aðgengileg heim í stofu með vefsíðunni Á sigurslóð. Hér er slóð yfir á síðuna: www.asigurslod.is
By Páll Ásgeirsson 22 Aug, 2023
Nýtt æfingatímabil er að hefjast í fótboltanum Æfingar eru fyrir árganga 2019 - 2005 og eru nýliðar sérstaklega velkomnir Nýjung í ár eru sérstakar stelpu og stráka æfingar fyrir leikskólaaldur en hingað til hafa æfingarnar verið blandaðar Hægt er að koma og prófa nokkrar æfingar án skuldbindingar Upplýsingar um æfingartíma inn á www.kfia.is/yngriflokkar Skráning fer fram á sportabler www.sportabler.com/shop/kfia
By Páll Ásgeirsson 27 Jul, 2023
Árleg líðanakönnun Knattspyrnufélags ÍA fyrir yngri flokka félagsins var framkvæmd í apríl s.l. Alls svöruðu 146 af 450 iðkendum í 2.- 7.flokks. Um var að ræða nokkrar spurningar er varða almenna líðan fyrir, á meðan og á eftir æfingar ásamt spurningar um þjálfara og samskipti. KFÍA leggur ríka áherslu á að öllum líði vel í leik og starfi innan félagsins. Þessi könnun er hluti af forvörnum KFÍA. Tilgangurinn er að skoða líðan og ánægju iðkenda og bregðast við þar sem þörf er á. Unnið er með niðurstöður hjá Barna- og unglingaráði og þjálfurum hvers flokks fyrir sig og brugðist við eftir þörfum. Hér eru nokkrir punktar úr könnuninni: 87% iðkenda sem svara könnuninni líður að öllu jöfnu vel fyrir æfingar 93% iðkenda sem svara könnuninni þykja þjálfarar koma vel fram við sig 86% iðkenda sem svara könnuninni þykja upplýsingaflæðið vera að öllu jöfnu gott 97% iðkenda sem svara könnuninni hlakka alltaf/oftast að mæta á æfingar 80% iðkenda sem svara könnuninni þykja samskiptin vera að öllu jöfnu góð Smellið hér til að sjá niðurstöður líðanakönnunar
Show More
Share by: