






Þá er löngu, ströngu og krefjandi keppnistímabili formlega lokið. Í fullri hreinskilni hefur þetta tímabil að mörgu leyti verið leiðinlegt fyrir alla sem að íslenskum fótbolta koma og virtist einhvern veginn aldrei ætla að ljúka. Við Skagamenn tökum engu að síður margt mjög jákvætt með okkur inn í framtíðina.
Frasinn 'maður uppsker eins og maður sáir' á vel við um okkur Skagamenn og tímabilinu sem er að ljúka. Fræin sem við sáum eru ólík öllum öðrum félögum. Ég efa það stórlega að lið í efstu deild á Íslandi hafi nokkur tímann spilað 9 leikmönnum á 2. flokks aldri á einu og sama keppnistímabilinu. Á sama tíma og við ræktum þessi fræ eru önnur lið í deildinni sem spila svipuðum fjölda fyrrverandi atvinnumanna í sínum liðum. Þau fræ eru, eins og gefur að skilja, talsvert þroskaðri en okkar. Áherslurnar eru misjafnar og niðurstöðuna þarf að meta í samræmi við þær.
Þjálfarateymið okkar, og starfsfólk, á risastórt hrós skilið fyrir vinnuna sem þau hafa lagt í liðið og umgjörð þess. Það hefur verið aðdáunarvert að fylgjast með samstöðunni og fókusnum sem einkennt hafa teymið. Sú samstaða smitar út frá sér inn í liðið. Þetta unga og efnilega þjálfarateymi hefur unnið sína vinnu af fagmennsku og ekki verið að þvo sinn þvott fyrir framan alþjóð. Aldrei tókum við þátt í misviturlegum umræðum um liðið eða félagið þrátt fyrir ítrekað blaður og þras um hinar ýmsu sögusagnir sem fæstar áttu við rök að styðjast. Á endanum skilaði teymið liðinu í ásættanlegt sæti í deildinni, spilaði oft á tíðum virkilega skemmtilegan fótbolta og skoraði helling af mörkum. Leikir liðsins voru hin fínasta skemmtun. Á árinu voru 4 leikmenn seldir frá félaginu, þar af þrír leikmenn sem fóru í atvinnumennsku. Við gerum okkur grein fyrir því að íslenska deildin, sem er í dag ein sú slakasta í Evrópu, er ekki endastöð fyrir unga og efnilega leikmenn. Okkar markmið er að koma þessum strákum erlendis þar sem þeir fá tækifæri til að vaxa og dafna í meira krefjandi umhverfi.
Í dag eru 7 ungir leikmenn frá ÍA að spila í atvinnumennsku sem hafa farið erlendis á síðustu 3 árum. 6 þeirra eru enn gjaldgengir í U21 árs landslið okkar og 5 þeirra spilað með því liði í undankeppninni sem tryggði U21 árs landsliðinu farseðil í lokakeppni Evrópumótsins. Fleiri strákar eru vonandi á leiðinni út og ungir strákar á Íslandi taka eftir því. Akranes er staðurinn til að vera á ef þú vilt komast í atvinnumennsku, hér fá ungir leikmenn tækifæri og þeim er treyst fyrir krefjandi verkefnum. Það er árangur sem við Skagamenn eigum að vera stolt af.
Kjarninn í félaginu okkar er engu að síður allt fólkið sem sem stendur þétt við bakið á því. Óteljandi sjálfboðaliðar sinna hinum ýmsu verkefnum fyrir félagið, hvort sem það er stjórnar- eða nefndarfólk, foreldrafulltrúar eða styrktaraðilar. Knattspyrnufélag ÍA er félagsskapur. Það er kjarninn í okkar samfélagi og hefur verið það í áratugi. Án fólksins sem styður við og vinnur fyrir félagið er ómögulegt að ná þeim árangri sem við höfum náð í gegnum tíðina. Þessa tengingu þurfum við að styrkja og efla á komandi misserum og það er sífeld vinna sem má ekki gleymast.
Fyrir hönd Knattspyrnufélags ÍA, þjálfarateymisins og
meistaraflokksráðs þakka ég öllum þeim sem stutt hafa við bakið á liðinu fyrir
stuðninginn á árinu. Höldum áfram að hjálpast að við að efla félagið okkar því
framtíðin er björt í fótboltanum á Akranesi
f.h.meistarflokks karla.
Hjálmur Dór Hjálmsson
Ingimar Elí Hlynsson
Framkvæmdastjóri
Sími: 620 2870
ingimarh@ia.is
Páll Guðmundur Ásgeirsson
Skrifstofu-og verkefnastjóri KFÍA
Sími: 858 7361
palli@ia.is
Sverrir Mar Smárason
Sölu- og markaðsstjóri KFÍA
Sími: 897 6153
sverrir@ia.is