Skarphéðinn Magnússon er nýr yfirþjálfari yngri flokka KFÍA

Skarphéðinn Magnússon hefur verið ráðinn yfirþjálfari yngri flokka Knattspyrnufélags ÍA (KFÍA) og mun hann taka til starfa um næstu mánaðarmót.

Skarphéðinn er með B.A. í tómstunda- og félagsmálafræði frá Háskóla Íslands. Hann hefur starfað hjá KFÍA frá árinu 2014 og á þeim tíma þjálfað marga yngri flokka félagsins við góðan orðstír.

Í viðtali á heimasíðu KFÍA segir hann: „Ég tel þetta vera frábært tækifæri fyrir mig sem þjálfara. Ég sé fram á virkilega spennandi tíma enda um mjög krefjandi starf að ræða sem er á sama tíma áhugavert að takast á við. Ég hlakka til að vinna með góðu fólki en félagið hefur á sínum snærum mjög góða og færa þjálfara auk þess sem það býr yfir miklum efnivið enda mikið af efnilegum krökkum í yngri flokkum félagsins. Ég hlakka til að glíma við þá áskorun sem þetta starf er og miðað við þann árangur sem við höfum verið að ná á árinu þá kvíði ég engu í starfi yngri flokka félagsins.”

Við bjóðum Skarphéðin hjartanlega velkominn til starfa og hlökkum til að starfa með honum.

 

Skarphéðinn Magnússon, nýr yfirþjálfari yngri flokka KFÍA