Skagastelpur unnu verðskuldaðan sigur á FH

Meistaraflokkur kvenna tók á móti FH í fyrsta leik ársins í faxaflóamótinu í Akraneshöll í dag. Skagastelpur voru töluvert sterkari aðilinn í leiknum og spiluðu góðan bolta á löngum köflum.

ÍA átti nokkrar góðar sóknir í fyrri hálfleik og Sigrún Eva Sigurðardóttir skoraði fyrsta markið snemma leiks. Lovísa María Hermannsdóttir, leikmaður FH, var svo óheppin og gerði sjálfsmark nokkru síðar. FH náði þó að klóra í bakkann þegar Helena Ósk Hálfdánardóttir skoraði úr vítaspyrnu.

Skagastelpur héldu áfram að vera sterkari aðilinn í síðari hálfleik og Ólöf Sigríður Kristinsdóttir skoraði gott mark um miðjan hálfleikinn. Það var svo Erla Karitas Jóhannesdóttir sem innsiglaði öruggan sigur ÍA með langskoti utan af kanti þegar langt var liðið á leikinn.

ÍA vann þannig verðskuldaðan 4-1 sigur á FH í fyrsta leik faxaflóamótsins og var gaman að fylgjast með þessu unga liði spila góðan og hraðan fótbolta.