Skagastelpur unnu öruggan sigur á Haukum

 

ÍA sigraði Hauka 5-1 í fyrsta leik lengjubikarsins sem fram fór í Akraneshöll í dag.

Skagakonur voru í við sterkari aðilinn í fyrri hálfleik þó Haukar hafi átt góða spretti og náðu forystu á fimmtu mínútu. ÍA svaraði með tveimur mörkum á fimmtándu og fertugustu og fjórðu mínútu. Staðan því 2-1 í hálfleik.

Í fyrri hálfleik voru markaskorarar fyrir ÍA þær Karen Þórisdóttir með góðu einstaklingsframtaki og Fríða Halldórsdóttir með stórglæsilegu langskoti utan af velli en Konný Arna Hákonsdóttir skoraði mark Hauka.

Síðari hálfleikur var eign Skagans sem bættu við þremur mörkum. Þar voru á ferðinni Hulda Margrét Brynjarsdóttir sem skoraði með hörkuskalla eftir hornspyrnu á sjötugustu mínútu.

Næst skoraði Erla Karítas Jóhannesdóttir á sjötugustu og fimmtu mínútu af miklu harðfylgi mark með skalla eftir góða fyrirgjöf frá vinstri. Lokamark leiksins skoraði á áttugustu og áttundu mínútu Fríða Halldórsdóttir, hennar annað mark í leiknum með hörkuskoti í fjærhornið.

Mun fleiri marktækifæri sköpuðust og var góður stígandi í leik Skagakvenna. Fimm skiptingar voru hjá ÍA og náðu allar að setja sitt mark á leikinn.

Framtíðin er björt á Skaganum í kvennaboltanum #ungarefnilegarskagastelpur!

 

Skagamenn byrja því vel í lengjubikarnum sem gefur góða von um framhaldið. Fjórar Skagastelpur spiluðu sinn fyrsta meistaraflokksleik í móti á vegum KSÍ. Þær eru Erla Karítas Jóhannesdóttir, Katrín María Óskarsdóttir, Ásta María Búadóttir og Sigrún Eva Sigurðardóttir.

 

ÍA-Haukar

0-1 Konný Arna Hákonardóttir (‘5)

1-1 Karen Þórisdóttir (’15)

2-1 Fríða Halldórsdóttir (’44)

3-1 Hulda Margrét Brynjarsdóttir (’70)

4-1 Erla Karitas Jóhannesdóttir (’75)

5-1 Fríða Halldórsdóttir (’88)

 

Höf: Sævar Freyr/Aníta Lísa