Skagastelpur unnu góðan útisigur á Víking Ó

Meistaraflokkur kvenna mætti Víking Ó í 17. umferð Íslandsmótsins þar sem rigning og rok var í stóru hlutverki á Ólafsvíkurvelli.

Víkingur hóf leikinn betur og Birgitta Sól Vilbergsdóttir skoraði fyrsta mark leiksins strax á fimmtu mínútu. Víkingar ógnuðu marki ÍA annars ekki mikið og áttu nokkur hálffæri. Skagastelpur áttu mun fleiri sóknir og fengu góð færi í hálfleiknum en náðu ekki að skora. Staðan í hálfleik var því 1-0 fyrir Víking.

Skagastelpur komu mjög grimmar til leiks í seinni hálfleik og ætluðu sér að jafna metin. Það tókst svo á 52. mínútu þegar Unnur Ýr Haraldsdóttir skoraði með góðu skoti. Góðar sóknir komu svo í kjölfarið en ávallt vantaði herslumuninn að koma boltanum í markið. Víkingar voru aldrei líklegir til að skora mark í seinni hálfleik og komust vart inn á vallarhelming ÍA.

Allt stefndi í jafntefli en þegar komið var í uppbótartíma átti ÍA hornspyrnu. Í hornspyrnunni flaug boltinn upp í fjærhornið og hafði vindurinn mikil áhrif á stefnu boltans. Þegar boltinn var næstum kominn í markið sló markvörður Víkings, Birta Guðlaugsdóttir, boltann upp í þaknetið og var markið skráð á hana sem sjálfsmark. Skagastelpur unnu því verðskuldaðan útisigur 1-2 með sigurmarki á síðustu mínútu.

Síðasti leikur tímabilsins er svo gegn Sindra á Norðurálsvelli laugardaginn 9. september kl. 14:00. Við hvetjum alla Skagamenn til að mæta á leikinn og styðja stelpurnar okkar til sigurs í leiknum.