Skagastelpur unnu góðan sigur á Aftureldingu/Fram

Meistaraflokkur kvenna spilaði í kvöld sinn síðasta heimaleik við Aftureldingu/Fram í Inkasso-deildinni í Akraneshöll. ÍA var í þriðja sæti deildarinnar með 34 stig og Fylkir og Keflavík voru búin að tryggja sér sæti í Pepsi-deildinni svo þessi leikur var aðeins upp á að enda tímabilið vel.

Hvorugt liðið ætlaði þó að gefa neitt eftir og barist var um hvern bolta. Mikil stöðubarátta var í leiknum og bæði lið voru að sækja og reyna að skapa sér markverð færi. Skagastelpur fengu nokkur ágæt hálffæri í hálfleiknum en ekki náðist að koma boltanum í netið.

Afturelding/Fram átti nokkrar góðar sóknir í fyrri hálfleik en vörn ÍA stóð vaktina með prýði og náði að bjarga þegar þörf var á. Á 32. mínútu kom þó fyrsta mark leiksins þegar Samira Suleman skoraði eftir sendingu frá Lovísu Mjöll Guðmundsdóttur.

Fátt markvert gerðist það sem eftir var hálfleiksins en gestirnir spiluðu góðan bolta og voru meira ógnandi upp við mark ÍA. Staðan í hálfleik var því 0-1 fyrir Aftureldingu/Fram sem var frekar sanngjörn staða miðað við gang leiksins.

Allt annað var að sjá til Skagastelpna í seinni hálfleik og strax á 47. mínútu kom jöfnunarmark leiksins. Þá átti Bergdís Fanney Einarsdóttir fallega sendingu inn í vítateig gestanna þar sem Heiðrún Sara Guðmundsdóttir lagði boltann fyrir sig og skoraði með góðu skoti.

ÍA hélt svo áfram að sækja af krafti og það skilaði öðru marki á 58. mínútu þegar Bergdís Fanney Einarsdóttir sendi boltann fyrir mark Aftureldingar/Fram þar sem Unnur Ýr Haraldsdóttir var mætt á fjærstöngina og skoraði af öryggi.

Skagastelpur áttu eftir það nokkrar ágætar sóknir í hálfleiknum en lítið kom úr þeim sóknarlotum. Afturelding/Fram sótti af miklum ákafa en ÍA barðist af hörku í vörninni og náði alltaf að bjarga áður en gestirnir næðu að nýta sín marktækifæri.

Undir lok leiksins var það svo Toni Ornela sem bjargaði ÍA með góðum markvörslum þegar gestirnir voru virkilega ágengir upp við markið. Í framhaldinu var leikurinn svo flautaður af og Skagastelpur unnu góðan 2-1 sigur á Aftureldingu/Fram í baráttuleik.

Maður leiksins var valin Heiðrún Sara Guðmundsdóttir en hún fékk gjafabréf frá Nínu í verðlaun. Með henni á myndinni er Sævar Freyr Þráinsson, varaformaður stjórnar KFÍA.