Skagamenn unnu góðan sigur á HK

ÍA sigraði HK í Kórnum 0-2 í öðrum leik liðanna í Lengjubikar karla 2017. Allir leikmenn í 18 manna leikmannahópi ÍA voru uppaldir í félaginu annan leikinn í röð.

Tryggvi Hrafn Haraldsson kom ÍA yfir þegar nokkuð var liðið á fyrri hálfleik eftir frábæra stungusendingu frá Garðari Gunnlaugssyni. Skagamenn voru sterkari aðilinn í hálfleiknum en HK menn fengu nokkur hálffæri sem lítið kvað að.

Í seinni hálfleik beittu okkar menn skyndisóknum en heimamenn náðu aldrei að ógna marki ÍA að miklu leyti. Það var svo varamaðurinn Steinar Þorsteinsson sem skoraði seinna mark ÍA með góðu langskoti þegar fimm mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma sem kláraði leikinn endanlega.

ÍA byrjar því Lengjubikarinn af krafti í ár og eru sex stig komin í hús nú þegar.

HK 0-2 ÍA
0-1 Tryggvi Hrafn Haraldsson (´33)
0-2 Steinar Þorsteinsson (´85)