Skagakonur með öruggan sigur á Selfossi í Lengjubikarnum

ÍA mætti Selfossi í öðrum leik beggja liða í Lengubikarnum í dag. Skaginn var töluvert sterkari í fyrri hálfleik og var mikið öryggi í spilamennsku liðsins og varnarleik. Fyrsta og eina mark fyrri hálfleiks leit ljós á áttundu mínútu er Brynja Valgeirsdóttir leikmaður Selfoss varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark með því að leggja boltann í stöngina og inn eftir þunga pressu Skagakvenna. Á nítjándu mínútu og á þrítugustu og fyrstu mínútu átti Bergdís Fanney Einarsdóttir skot eftir að hafa komið sér í góða stöðu. Aðeins meiri kraftur í skotið hefði valdið markmanni Selfoss meiri vandræðum sem varði bæði skot örugglega.

Selfoss kom af meiri krafti inn í seinni hálfleikinn og meira jafnvægi var með liðunum. Skaginn varðist vel og náði Selfoss að ógna lítið. Bryndís Rún Þórólfsdóttir kom inn af varamannabekknum á fimmtugustu og sjöundu mínútu og kom aukin kraftur í sóknarleik ÍA. Bar það ávöxt á sjötugustu og annarri mínútu er Bryndís átti hörkuskot og skoraði stórfenglegt mark með hörkuskoti vel fyrir utan markteig sem söng í netinu við markvinkilinn.  Óverjandi skot fyrir markvörð Selfoss.  Selfoss átti svo góða rispu á áttugustu og annarri mínútu og komst leikmaður þeirra ein á móti markverði. Katrín María Óskarsdóttir markvörður sem kom inn á í hálfleik lokaði markinu vel og varði ágætt skot Selfoss. Bryndís átti í kjölfarið tvö skot utan af velli sem markvörður Selfoss var ekki í vandræðum með. Selfoss náði svo að klóra í bakkann á áttugustu og níundu mínútu og skoruðu gott mark með skalla eftir vel útfærða aukaspyrnu.  Nær komst Selfoss ekki enda gáfu skagastelpur þeim ekki möguleika með góðri pressu.

Heilt yfir var Skagaliðið sterkt í þessum leik og spilamennska liðsins oft virkilega góð.  Liðsskipulagið hélt og var þetta góður sigur liðsheildarinnar.

Á myndinni er Bryndís Rún Þórólfsdóttir ásamt móður sinni Áslaugu Ákadóttur. Bryndís skoraði seinna mark Skagastúlkna í dag.

ÍA 2-1 Selfoss

1-0         Sjálfsmark mótherja (´7)

2-0         Bryndís Rún Þórólfsdóttir (´72)

2-1         Íris Sverrisdóttir (´89)