Ólöf Sigríður með fernu í sigri á Álftanesi

Meistaraflokkur kvenna tók á móti Álftanesi í fjórða leik ársins í faxaflóamótinu í Akraneshöll í dag. Skagastelpur voru töluvert sterkari aðilinn í leiknum og spiluðu fínan bolta á löngum köflum.

ÍA átti margar sóknir í fyrri hálfleik en þrátt fyrir góð marktækifæri náðist ekki að koma boltanum í netið fyrr en í seinni hluta hálfleiksins en þá skoraði Ólöf Sigríður Kristinsdóttir gott mark. Álftanes skapaði sér fátt markvert og staðan í hálfleik var því 1-0 fyrir ÍA.

Skagastelpur héldu áfram að vera sterkari aðilinn í síðari hálfleik og Ólöf Sigríður Kristinsdóttir skoraði tvö góð mörk snemma í hálfleiknum og náði þar með þrennu í leiknum. Álftanes átti í erfiðleikum með að skapa sér færi í leiknum og vörn ÍA lenti sjaldan í vandræðum.

Eftir nokkrar ágætar sóknir í hálfleiknum kom það svo í hlut Ólafar Sigríðar Kristinsdóttur að bæta við fjórða marki ÍA og sínu fjórða marki í leiknum á lokamínútunum.

ÍA vann þannig öruggan 4-0 sigur á Álftanesi í faxaflóamótinu og hafa Skagastelpur unnið þrjá af fjórum leikjum sínum í riðlinum.