Knattspyrnufélagið ÍA framlengir við Jóhannes Karl Guðjónsson

Aðalstjórn Knattspyrnufélags ÍA hefur framlengt núverandi samning við Jóhannes Karl
Guðjónsson sem þjálfara meistaraflokks karla til næstu fimm ára. Jóhannes Karl er uppalinn
hjá ÍA og hefur mikla reynslu sem leikmaður hér á landi og sem atvinnumaður erlendis með
liðum á borð við Real Betis, AZ Alkmaar, Wolves, Burnley og Aston Villa

.
Áður en Jóhannes Karl skrifaði undir samning við Knattspyrnufélag ÍA haustið 2017 hafði
hann stýrt HK við góðan orðstír. Starf hans hjá ÍA hefur svo einkennst af miklum metnaði og
sigurvilja sem hefur smitað út frá sér í öllu starfi félagsins.

„Ég er mjög ánægður með það mikla traust sem mér er sýnt með því að framlengja
samningin minn við ÍA sem þjálfari meistaraflokks karla. ÍA er félagið sem ég er alinn upp í og
félagið sem ég hef alltaf litið á sem mitt félag og þar vil ég halda áfram að taka þátt í
frábæru starfi. Framtiðin er björt í fótboltanum á Akranesi og framundan er metnaðarfullt
uppbyggingarstarfi“ segir Jóhannes Karl, þjálfari meistaraflokks ÍA.

Mikil ánægja hefur verið hjá ÍA með samstarfið við Jóhannes Karl og glæsilegt gengi
síðastliðið sumar endurspeglar það, en þá vannst bæði sigur í Inkasso deild karla, en einnig
varð 2.flokkur karla Íslandsmeistari. Framundan eru spennandi tímar í knattspyrnunni á
Akranesi þar sem byggt verður á gildum félagsins en þau eru metnaður, vinnusemi,
þrautseigja, virðing og agi.

Akranesi 14. mars 2019
Aðalstjórn Knattspyrnufélags ÍA

Jóhannes Karl ásamt formanni KFÍA, Magnúsi Guðmundssyni