Guðjón Finnbogason heiðursfélagi ÍA er látinn

Guðjón Finnbogason, heiðursfélagi ÍA er látinn á nítugasta aldursári. Hann var í stjórn ÍA um árabil og var heiðursfélagi ÍA og Knattspyrnufélags ÍA. Þá voru honum veitt gullmerki ÍSÍ og KSÍ fyrir framlag sitt til knattspyrnunnar á Íslandi. Hann lék á sínum ferli 111 leiki fyrir ÍA og var Íslandsmeistari 1951, 1953, 1954, 1957 og 1958. Þá lék hann 16 landsleiki á árunum 1953-1958. Nánar má lesa um afrek Guðjóns á síðu KFÍA.

Með Guðjóni er genginn mikill sómamaður sem kom víða við í íþróttastarfi á Akranesi. Hann var leikmaður ÍA á árunum 1946-1959 og einn besti leikmaður gullaldarliðsins. Hann lék á sínum ferli 111 leiki fyrir ÍA og var Íslandsmeistari 1951, 1953, 1954, 1957 og 1958. Þá lék hann 16 landsleiki á árunum 1953-1958.

Guðjón var fæddur 2 desember 1927 og ól allan sinn aldur á Akranesi. Óhætt er að segja að enginn knattspyrnumaður Akurnesinga hafi átt eins fjölbreyttan feril og Guðjón. Fyrr er nefndur knattspyrnuferill hans og auk þess var hann þjálfari meistaraflokks ÍA 1960, 1964 og 1965. Hann gerði liðið að Íslandsmeisturum 1960 og hin tvö árin var liðið í öðru sæti. Þá var hann knattspyrnudómari í fremstu röð um árabil og dæmdi í efstu deild auk þess sem hann var alþjóðlegur dómari og dæmdi m.a landsleiki og í Evrópukeppnum. Þessi ferill hans er einstakur í íslenskri knattspyrnusögu.

Guðjón var mikill félagsmálamaður og kom víða við í þeim efnum. Hann var í stjórn ÍA um árabil svo einnig í knattspyrnuráði . Guðjón var heiðursfélagi Knattspyrnufélags ÍA og honum var veitt gullmerki ÍSÍ og KSÍ. Guðjón var fastagestur á leikjum ÍA fram á síðusta ár og mikill áhugamaður um framgang knattspyrnunnar.

Guðjón  var kvæntur Helgu Sigurbjörnsdóttir sem lést 2013 . Börn þeirra eru þrjú Margrét, Sigurður og Snorri.

Knattspyrnufélag ÍA þakkar Guðjóni af heilum hug hans þátt í að setja knattspyrnustarfið á Akranesi á þann stall sem það er og fyrir allan þann stuðning  sem hann veitti félaginu á löngum tíma. Börnum þeirra og öðrum aðstandendum eru sendar hugheildar samúðarkveðjur.

Blessuð sé minning Guðjóns Finnbogasonar.