Góður sigur á HK í æfingaleik

ÍA sigraði HK 6-0 í æfingaleik sem fram fór í Akraneshöll í dag. Frá fyrstu mínútu voru Skagamenn sterkari aðilinn og um hreina sýnikennslu var að ræða á köflum gagnvart HK, sem áttu ekki sinn besta leik í dag.

Í fyrri hálfleik voru markaskorarar Ragnar Már Lárusson með tvö mörk og Arnar Már Guðjónsson og Arnór Sigurðsson gerðu sitt markið hvor. Mun fleiri marktækifæri sköpuðust en yfirburðir ÍA voru miklir. Fjögur mörk voru þó látin duga í fyrri hálfleiknum.

Í seinni hálfleik var töluvert um skiptingar og það hafði nokkur áhrif á gang leiksins. Skagamenn voru samt alltaf betra liðið og bættu við tveimur mörkum. Hallur Flosason skoraði úr vítaspyrnu og Hilmar Halldórsson skoraði síðasta mark leiksins. Fleiri mörk hefðu getað litið dagsins ljós en það náðist ekki að nýta þau færi.

Skagamenn halda því áfram góðu gengi sínu á árinu.