Bergdís Fanney valin í U19 landsliðið

Bergdís Fanney Einarsdóttir hefur verið valin í U19 ára landsliðshópinn sem tekur þátt í forkeppni fyrir Evrópumótið 2018 sem mun fara fram í Sviss 18.-30. júlí. Riðill Íslands fer fram í Þýskalandi 10.-21. september næstkomandi. Með okkur í riðli eru gestgjafarnir Þjóðverjar en auk þess Kosóvó og Svartfjallaland. Leikirnir fara fram 12., 15. og 18. september. Forkeppnin er leikin í 12 riðlum og komast efstu tvö liðin úr hverjum riðli áfram í svokallaða “Elite round” sem sker svo endanlega úr um það hvaða 8 lið taka þátt í lokakeppninni.

Bergdís Fanney er, eins og flestir vita, mikilvægur leikmaður í meistaraflokki kvenna en hún hefur tekið þátt í öllum leikjum liðsins í 1. deildinni í sumar og skorað 6 mörk. Hún á að baki 14 leiki fyrir U17 landsliðið en þetta verða hennar fyrstu leikir fyrir U19. Við óskum henni til hamingju með valið og að sjálfsögðu góðs gengis í þeim verkefnum sem framundan eru.