Ármann Smári Björnsson leggur skóna á hilluna

Ármann Smári Björnsson fyrirliði ÍA til margra ára hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna og mun ekki spila fyrir liðið í sumar.  Ármann Smári meiddist illa undir lok síðustu leiktíðar þegar hann sleit hásin í leik gegn KR. Hann var staðráðinn í því að snúa aftur út á völlinn í sumar, en hefur nú tekið þá ákvörðun um að láta staðar numið.

Ármann Smári gekk til liðs við ÍA fyrir leiktíðina 2012 þegar hann kom til landsins eftir atvinnumennsku í Noregi og Englandi og hefur staðið í vaktina í miðju varnarinnar í 5 leiktíðir. Einnig hefur hann verið fyrirliði liðsins síðan sumarið 2014. Ármann sem er 36 ára spilaði alls 169 leiki fyrir félagið og skoraði 11 mörk.

„Það hefur verið frábært að spila fyrir ÍA. Það er eiginlega ótrúlegt og erfitt að lýsa því. Þetta er stórt félag og bærinn snýst allur um þetta. Það eru allir með.“ segir Ármann Smári um ferilinn hjá ÍA.

Ármann Smári hefur verið mikilvægur hlekkur í liði Skagamanna undanfarin ár og því er mikill missir af honum á vellinum. Sem dæmi má nefna að hann var valinn leikmaður árs­ins 2016 hjá Morg­un­blaðinu í Pepsi-deild karla í knatt­spyrnu en einnig var hann valinn leikmaður ársins af stuðningsmönnum liðsins eftir síðustu leiktíð. Knattspyrnufélag ÍA þakkar Ármanni fyrir ómetanlegt framlag á spennandi tímum hjá félaginu og óskar honum alls hins besta í framtíðinni.