Aðalfundur KFÍA 2017

Aðalfundur KFÍA árið 2017 var haldinn í Hátíðasalnum á Jaðarsbökkum fimmtudaginn 16. febrúar kl. 20:00. Fram fóru venjuleg aðalfundarstörf samkvæmt lögum félagsins en á fundinn mættu rúmlega þrjátíu manns og hann telst því löglegur aðalfundur.

Fundarstjórn var í höndum Péturs Ottesen en fundarritari var Ólafur Ingi Guðmundsson. Stjórnarformaður félagsins, Magnús Guðmundsson, opnaði fundinn með því að flytja nokkur minningarorð um Ríkharð Jónsson sem féll frá nú á dögunum og fór því næst yfir ársskýrslu félagsins. Í kjölfarið fór framkvæmdastjóri, Hulda Birna Baldursdóttir, yfir ársreikning félagsins fyrir árið 2016 og kynnti samhliða því áætlun ársins 2017. Hvort tveggja var svo borið undir atkvæði fundarins og samþykkt athugasemdalaust.

Ljóst var að einhverjar mannabreytingar yrðu í stjórnum félagsins og kjörnefnd, skipuð þeim Gísla Gíslasyni, Jóhönnu Hallsdóttur og Magnúsi D. Brandssyni, hafði unnið ötullega að því að finna nýtt fólk sem gæfi kost á sér í þessi embætti. Niðurstaða kosninga var eftirfarandi:

 • Aðalstjórn:
  • Magnús Guðmundsson, formaður, endurkjörinn
  • Sævar Freyr Þráinsson, endurkjörinn
  • Bjarnheiður Hallsdóttir, endurkjörin
  • Ólafur Ingi Guðmundsson, endurkjörinn
  • Viktor Elvar Viktorsson, endurkjörinn
  • Örn Gunnarsson, endurkjörinn
  • Varamenn eru Þórir Björgvinsson, sem var endurkjörinn, og Sigríður Valdimarsdóttir kom ný inn sem varamaður í stað Dýrfinnu Torfadóttur sem lætur af stjórnarsetu.
 • Stjórn Uppeldissviðs:
  • Heimir Fannar Gunnlaugsson tekur við formennsku af Lárusi Ársælssyni
  • Jóhannes Hjálmar Smárason, endurkjörinn
  • Arnbjörg Stefánsdóttir, endurkjörin
  • Rannveig Björk Guðjónsdóttir, endurkjörin
  • Jófríður María Guðlaugsdóttir kom inn í stað Gísla Karlssonar, sem ekki gaf kost á sér
  • Varamenn eru Kristrún Dögg Marteinsdóttir, sem var endurkjörin, og Helena Rut Steinsdóttir sem tók við sæti Guðmundar Páls Jónssonar.
 • Kjörnefnd:
  • Gísli Gíslason, endurkjörinn
  • Magnús D. Brandsson, endurkjörinn
  • Jónína Víglundsdóttir tekur við af Jóhönnu Hallsdóttur sem gaf ekki kost á sér áfram.
 • Hildur Karen Aðalsteinsdóttir kom inn í fagráð KFÍA í stað Karls Þórðarsonar sem gaf ekki kost á sér áfram. En endurkjörnir voru Sturlaugur Sturlaugsson og Hrefna Ákadóttir.

Það er ekki á allra færi að taka að sér svona stór og oft á tíðum tímafrek verkefni í sjálfboðaliðavinnu og félagið hefur búið vel að því að hafa öflugt fólk að störfum. Við kunnum þeim öllum hinar bestu þakkir fyrir, bæði fráfarandi stjórnarfólki, þeim sem sitja áfram og einnig þeim sem koma nýir inn.

Á fundinum voru veittar eftirfarandi viðurkenningar, en þeir Jón Gunnlaugsson og Gísli Gíslason bera veg og vanda að tilnefningunum, sem síðan eru bornar undir stjórn:

 • Steinn Helgason fékk gullmerki fyrir sitt framlag til félagsins, sem leikmaður, þjálfari og dyggur stuðningsmaður.
 • Haraldur Ingólfsson fékk heiðursviðurkenningu fyrir sitt framlag sem leikmaður, en hann er fimmti leikjahæsti maður liðsins og sá fjórði markahæsti, og sem framkvæmdastjóri félagsins síðustu þrjú ár.
 • Jónína Víglundsdóttir fékk heiðursviðurkenningu, en hún er meðal leikjahæstu kvenna hjá ÍA frá upphafi og hefur alla tíð verið ötull stuðningsmaður knattspyrnustarfsins á Akranesi.
 • Sigrún Ríkharðsdóttir fékk heiðursviðurkenningu fyrir sín störf fyrir félagið, sem stjórnarmaður og formaður en þó kannski helst af öllu sem einn dyggasti stuðningsmaður félagsins.
 • Lárus Ársælsson fékk heiðursviðurkenningu fyrir sín störf í stjórnum félagsins frá 2009-2017 en hann hefur síðustu árin verið formaður stjórnar Uppeldissviðs og sem slíkur haldið um alla þræði við skipulagningu Norðurálsmótsins, sem er stærsti einstaki viðburður félagsins ár hvert.

Nokkrir tóku til máls undir liðnum Önnur mál. Hjalti Rúnar Oddsson, sjúkra- og styrktarþjálfari, kynnti starf sitt með iðkendum frá 4. flokki karla upp í meistaraflokk karla, en þar er lögð mikil áhersla á æfingar til að fyrirbyggja meiðsli, auka styrk og liðleika og kenna réttar æfingar á réttan hátt. Einnig að æfingaáætlunin myndi ákveðna samfellu og þannig dragi úr viðbrigðum við flokkaskipti. Anna Sólveig Smáradóttir sér um sambærilegar æfingar fyrir kvennaflokkana.

Magnús, formaður, og Hulda, framkvæmdastjóri, kynntu nýja heimasíðu félagsins, www.ia.is/kfia, sem sett var í loftið saman dag.

Sigrún Ríkharðsdóttir tók til máls og þakkaði fyrir viðurkenninguna en þó ekki síður hlýhug og stuðning sem hún og hennar fjölskylda finna fyrir vegna fráfalls föður hennar, Ríkharðs Jónssonar.

Helga Sjöfn Jóhannesdóttir, formaður Íþróttabandalags Akraness, lýsti ánægju sinni með starf félagsins, bæði varðandi tækifæri ungra leikmanna af báðum kynjum og einnig hvernig staðið er að veitingu viðurkenninga fyrir vel unnin störf.

Haraldur Ingólfsson þakkaði fyrir viðurkenninguna og lýsti sömuleiðis yfir ánægju sinni með þá leið sem félagið er á, með þjálfarahópinn og tækifæri ungra leikmanna. Hann sagðist verða töluvert var við það, nú þegar hann er við störf á öðrum vettvangi, að Knattspyrnufélag ÍA sé víða að vekja athygli fyrir sitt starf.

Einar Brandsson tók til máls og sagði frá getraunahópi KFÍA. Þar er alltaf pláss fyrir gott fólk og við hvetjum áhugasama til að setja sig í samband við hann.

Ekki voru fleiri mál á dagskrá og fundarstjóri sleit fundi með eftirfarandi orðum:

Fagur hópur, fram á veg er litið,

– fleira var ekki gert, og fundi slitið!

 

Knattspyrnufélag ÍA þakkar öllum fundargestum fyrir komuna.

 

Ársskýrsla KFÍA 2016

Ársreikningur KFÍA 2016