3. flokkur kvenna endaði í öðru sæti á Íslandsmótinu

3. flokkur kvenna lék í gær úrslitaleik við Val í úrslitum um Íslandsmeistaratitilinn á Norðurálsvelli. Mikil barátta var í leiknum og barist var um hvern bolta og þó að Valur hefði unnið A-riðil en ÍA/Skallagrímur B-riðil var ekki að sjá mikinn getumun á liðunum.

Þrátt fyrir margar góðar tilraunir náði ÍA/Skallagrímur ekki að koma boltanum í netið en Valur náði að koma boltanum einu sinni í markið í hvorum hálfleik. Valur vann því leikinn 0-2 og Skagastelpur verða að sætta sig við silfrið í þetta sinn.

Árangurinn í sumar er þó frábær og ekki oft sem lið í B-riðli er nálægt því að landa Íslandsmeistaratitli í yngri flokkum. Við viljum óska þessum frábæru stelpum innilega til hamingju með framúrskarandi árangur á tímabilinu.

Framtíðin er björt í kvennaboltanum hjá ÍA ef þessar stelpur halda áfram af sama krafti og þær hafa gert hingað til.